Um Mela Sport

Viðar Viðar

Upphaf og hugmyndafræði

Fyrirtækið Melar Sport var stofnað um mitt ár 2009 utan um rekstur Viðars Halldórssonar félagsfræðings. Starfsemi fyrirtækisins snýr að ráðgjöf og fyrirlestarhaldi á sviði árangursfræða.

Nafn fyrirtækisins og hugmyndafræði eiga sér rætur í glæstri íþróttasögu Íslendinga. Það er dregið af Melunum í Reykjavík sem voru vagga íslensks íþróttalífs í flestum íþróttum í hátt í heila öld á uppvaxtarárum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.

Fyrsti manngerði íþróttavöllur á Íslandi, Glímuvöllurinn á Melunum, var reistur árið 1873 og síðar Melavöllurinn árið 1911 sem stóð til ársins 1984 þó með einhverjum breytingum. Við vígsluathöfn Melavallarins árið 1911 sagði Ólafur Björnsson, formaður íþróttasambands Reykjavíkur m.a. um völlinn:

Hann er einn votturinn um það, að hjá oss er að fæðast af nýju endurfrjóvgaður hollur tíðarandi, heilbrigðar skoðanir um það, sem fornmenn töldu mest um vert og lýsir sér í rómverska máltækinu: Sana mens in sano corpore (heilbrigð sál í hraustum líkama).

Á sínum tíma þótti Melavöllurinn vera einn sá besti sinnar tegundar á Norðurlöndum og voru mörg af merkustu íþróttaafrekum Íslendinga unnin á vellinum. Á Melunum og Melavellinum voru stundaðar fjölbreyttar íþróttir eins og knattspyrna, frjálsar íþróttir, hnefaleikar, glíma, fimleikar, hestamennska, handknattleikur, tennis, badminton, íshokkí, skautahlaup, o.fl. auk þess að þar voru haldin landsmót og ýmsar skemmtanir.

Melar Sport leggja sig fram við að standa fyrir þau heiðvirðu og árangursríku grunngildi íþrótta fyrri tíma sem lúta að vinnusemi, heiðarleika og virðingu í leið að árangri. Í því felst að fyrirtækið leitast við að veita viðskiptavinum sínum persónulega og vandaða þjónustu sem snýr að þörfum hvers og eins.

Viðar Halldórsson (vidar@melarsport.is)